Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Matarsaga

18:23. ´Allt í lagi, kjúklingurinn er kominn á pönnuna og bráðum þarf að kveikja undir pastanu.´

Hún snarsnerist í kringum sjálfa sig í eldhúsinu, nú yrði allt að vera fullkomið. Bróðurparturinn af eftirmiðdeginum hafði farið í að undirbúa kvöldmáltíðina; kvöldmáltíðina sem var svo mikilvæg. Nú var komið að því að sýna vinnufélögunum hvers hún væri megnug í eldhúsinu, að þó hún væri kannski ekki með mesta kjarkinn í mannleg samskipti á vinnustaðnum þá hafði hún nú allavegana kjark í þetta; að bjóða öllum heim til sín og elda fyrir þá. Og hún þurfti ekki að kvíða neinu því að hún naut sín best í eldhúsinu. Það sást reyndar á vextinum. Hún var ein af þessum konum sem að fitnaði ekki um mjaðmirnar eða rassinn. Nei; hvert einasta gramm sem hún innbyrti settust öll sem eitt á brjóstin og magann. Að ofan var hún einsog flugmóðurskip sem var borið uppi af sömu fótunum, í sömu stærðinni og síðan hún var 12 ára. Hún gerði sér alveg grein fyrir þessum líkamlegu einkennum og gerði allt sem hún best gat til að klæða vöxtinn af sér og tókst nokkuð vel upp. Fæstir gerðu sér grein fyrir því hvernig hún var vaxin. Öðru hvoru skaust upp óljós ótti hjá fólki sem horfði á hana að hún myndi detta fram fyrir sig, enginn hugsaði sig þó tvisvar um til að reyna að komast til botns í því af hverju þessi hugsun kom fram. Vöxturinn og flatt andlitið, innrammað af rennisléttu músabrúnu hári, ullu því í sameiningu að hún varð afskaplega óeftirminnanleg.

18:31. ´Var ég búin að salta pastað? Ég var allavegana ekki búin að salta kjúklinginn´

Hún kveikti undir pastanu, hellti rjóma út á pönnuna og tókst í leiðinni að skvetta rjóma uppá annað brjóstið. Hún var reyndar löngu komin með subb út um allan bol, gleymdi að setja á sig svuntu einsog alltaf og tók ekki eftir því fyrr en það var orðið of seint. ´Ansans, nú þarf ég að skipta um bol' sagði hún upphátt við sjálfa sig. Það hentaði henni afar illa því að hún átti engan almennilega fínan bol sem passaði við þessar buxur. Hvað var klukkan orðin? Jæja, hún var þó ekki nema hálf 7, fólkið myndi ekki koma fyrr en um 7. Hún hrærði á pönnunni og lækkaði undir henni, hljóp svo inn í svefnherbergi og kíkti inn í fataskápinn. Þar var ekkert við fyrstu augsýn sem passaði, nema kannski bláa peysan með vaff-hálsmálinu. Jú, ætli bláa peysan sé besti kosturinn úr því sem komið var, þó að kynþokkinn sem bolurinn veitti henni minnki til muna með peysunni.

18:46.Pastað bullsýður og kjúklingurinn mallar. Allt í réttu áttina. Hvað ætti hún að leggja á borð fyrir marga? Hún bauð öllum á vinnustaðnum sem eru 9 manns en ætli allir komi? Það var nú reyndar enginn búinn láta neitt í sér heyra, þýðir það ekki að allir mæti? Það var allavegana betra að leggja á borð fyrir alla heldur en að lenda í því að það sé ekki nóg diskum. 10 diskar á borðið.

18:55.´Hvað er þá eftir? Opna rauðvínsflöskur, ætli sé ekki best að opna bara 3 til að byrja með og leyfa því öllu að anda. Best að kíkja í spegil líka. Jesús Kristur! Ég gleymdi að greiða mér!!´

Hún tók andköf og reiknaði út hvað hún hefði mikinn tíma til að gera eitthvað við hárið á sér, komst svo að þeirri niðurstöðu að það þyrfti bara að vera slegið einsog venjulega. Hún fór með pastað inn á borð, opnaði rauðvínið og sótti salt og piparstaukana inn í eldhús. Þá mættu gestirnir fara að koma.

19:14. ´Það þorir örugglega enginn að vera fyrstur. Það er málið´.

Hún gekk um stofuna til að tékka hvort það væri ekki örugglega allt á sínum stað, týndi ló af teppinu og bankaði upp einn púðann í sófanum. Hún setti disk í geislaspilarann og fyllti stofuna af þægilegri dinnertónlist til að fylla upp í komandi óþægilegar þagnir sem myndu annars verða ennþá meira áberandi. Hún settist í tveggja sæta sófann og hélt áfram að bíða eftir matargestunum.

19:36. ´Hvar eru eiginlega allir?´

Hún gekk út að glugganum til að vita hvort það væri nokkuð farið snjóa. Ef svo væri þá gæti verið að matargestirnir hennar væru bara fastir í skafli einhvers staðar á leiðinni, eða hefðu kannski ekki þorað að leggja af stað ef þeir væru bara enn á sumardekkjunum. Þeir hefðu nú kannski getað látið hana vita samt. En það snjóaði ekki, auð jörð alls staðar. Hún gekk inn í eldhús til að tékka á kjúklingnum sem stóð enn á hellunni.

20:03. ´Kannski hefur eitthvað komið fyrir! Ég sendi þeim pottþétt öllum ímeil til að bjóða þeim, svo minntist ég á þetta á kaffistofunni í morgun!´

Hún gekk að tölvunni og opnaði hana, bæði til að fullvissa sig hvort hún hefði ekki örugglega sent tölvupóstinn og til að tékka á því hvort að það hefði orðið eitthvað slys eða eitthvað sem hefði getað hindrað þau í að komast. Hún opnaði mbl.is og skimaði eftir fyrirsögninni: ,,9 samstarfsmenn á auglýsingastofu sendir á sjúkrahús eftir smávægilegt bílslys" en ekkert slíkt var að finna. Þetta virtist vera tíðindalaust föstudagskvöld einsog þau gerast verst. Og jú, þarna í póstinum hennar var kvöldverðarboðið, sent á alla í fyrirtækinu. Af hverju var enginn kominn?

21:34 ´Hvað í fjandanum á ég að gera við allan þennan mat? Og allt þetta rauðvín?´


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband