Strætósaga

  Ólafur barðist gegnum storminn og bölvaði rigningunni á leið sinni út að strætóskýlinu. Stórir skórnir voru þegar orðnir blautir og þunnur jakkinn var órenndur og slóst við handleggina. Ólafur hljóp þunglamalega af stað þegar hann kom auga á rassinn á strætónum sem hann ætlaði að taka en hann vissi það strax að hann var búinn að missa af honum. Nokkur orð til heiðurs strætó bættust í fúkyrðaflauminn sem streymdi frá Ólafi. Fjandans fjandi. Nú yrði hann of seinn í skólann. Það var korter í næsta strætó. Ólafur var enn móður eftir sprettinn þegar hann smeygði sér inn í skýlið. Jæja, hann gat þó sest niður því skýlið var tómt og reynt að halda á sér hita.

 

Skýlið fylltist smám saman af fólki á leið til vinnu og í skólann. Það var óvenju þröngt í skýlinu því enginn hafði verið viðbúinn þessu veðri og allir enn í sumarfötunum. Ólafur reyndi að muna hvar hann tróð úlpunni sinni seinasta vor. Svo hvarflaði hugurinn að skólanum, hvaða tími var eiginlega fyrst? Var það eðlisfræði eða líffræði? Nei, bíddu, það var mánudagur, var ekki franska alltaf fyrst á mánudögum? Strætó stoppaði fyrir framan skýlið og allir farþegarnir reyndu að troðast sem fyrst inn til að takmarka tímann sem þeir þyrftu að eyða milli skýlisins og strætósins. Strætóinn var hálffullur en Ólafur fékk tvö sæti fyrir sig og bjó sig undir hálftíma strætóferð með því að draga frönskubókina sína upp úr skólatöskunni.

Þó að Ólafur væri með bók í fanginu þá ruggaði kunnuglegur taktur vagnsins honum fljótt í svefn. Stoppa og taka upp farþega, taka af stað, stoppa á ljósum, taka af stað, beygja, farþegar, af stað, skipta um akrein. Ekkert af þessu truflaði dúrinn hjá Ólafi. Það var ekki fyrr en að hann fann að eitthvað kom við hliðina á honum að hann opnaði augun. Hann glaðvaknaði þegar hann sá að það var stelpa sest við hliðina á honum. Rennblaut.

Stelpan leit til hans og brosti hálf pínlega einsog til að afsaka sig fyrir að vera að ferðast með strætó svona til fara. Ólafur roðnaði einsog alltaf þegar hann kom nálægt stelpum. Hann fann mikið fyrir öllum aukakílóum sem fylgdu honum og reyndi að gera eins lítið úr sér og hann gat svo að stelpan myndi nú allavegana fá ¾ af sætinu sínu. Ætti hann að afsaka sig fyrir að taka svona mikið af sætinu? Hann ætti allavegana að segja eitthvað; hvað segir fólk venjulega við svona aðstæður?

´Þetta er nú m.. meira verð.. verðr.. veðrið´ Jesús Kristur! Gat hann ekki einu sinni stunið út úr sér einni setningu við sæta stelpu án þess að stama einsog hálfviti? Það sem hafði áður verið tómatrautt af andliti hans varð dökkvínrautt og roðinn breiddist niður hálsinn og niður á bringu.

Stúlkan leit á hann, brosti og kinkaði kolli. Ólafi fannst hann þurfa að segja meira til að þetta yrði ekki það eina sem hún myndi muna eftir honum. Svo hann yrði ekki bara ´stami-strákurinn sem var svo feitur að strætó fékk slagsíðu ef hann sat út við glugga´ í huga hennar.

´Þeir spá þessu veðri fram á fimmtudag.´ Jæja, ókei, ekkert stam í þetta skiptið. Stelpan leit aftur til hans og kinkaði kolli. Hún tók bók upp úr töskunni og byrjaði að lesa af miklum áhuga. Það draup af hári hennar ofan á blaðsíðuna og hún tók lokkinn sem hékk niður og setti aftur fyrir bak. Ólafur horfði á fíngerða fingurna sem héldu bókinni opinni. Hún var að lesa Njálu. Ein tilraun enn að samtali.

´Hvað er málið með þessa Hallgerði eiginlega? Hún var alveg kolbrjáluð!´ Stúlkan leit svolítið hissa á hann og hristi höfuðið lítillega. Hún hafði greinilega engan áhuga á uppbyggjandi samræðum við ferðafélaga sína í morgunsárið. Ólafur bölvaði aftur, í þetta skiptið í huganum.

´Hallgerður gat þó allavegana náð sér í fullt af karlmönnum´ Af hverju var hann enn að tala? Hafði hún ekki gert honum það fullkomlega ljóst að hún vildi ekki tala við hann? Stelpan setti bókina aftur ofan í tösku og stóð á fætur. Í sama mund stoppaði strætó og stelpan stökk út.

Ólafur horfði á eftir henni og vonaði með sjálfum sér að hún hafi ætlað þarna út hvort sem var, að hann hafi ekki hrakið hana úr strætónum. Hann velti frönskubókinni milli handa sér og breiddi úr sér aftur. Rigningin var byrjuð að breytast í slyddu og stormurinn rétt að byrja. Hann hallaði sér aftur í sætinu og lokaði augunum. Hann átti ennþá eftir 10 mínútur þangað til hann kæmi að skólanum.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Ég fór í strætó í dag... eða var það í gær...??

Helga (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 13:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband