Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Tilviljanir krydda lífið

Í gærnótt dreymdi mig mikla og stóra drauma, einsog oft áður kannski. Það eina sem ég mundi svona þegar ég var búin að fá mér morgunmat var að mig dreymdi að ég hefði fengið sms frá Andra frænda.

Fyrir þá sem ekki þekkja Andra frænda þá erum við systkinabörn og jafngömul. Reyndar verð ég að segja að ég er 3 vikum eldri en hann og ég nuddaði honum upp úr því alla okkar barnæsku. Satt að segja skil ég ekki alveg að hann skuli tala við mig enn þann dag í dag.. En við lékum okkur allavegana alltaf saman þegar við vorum lítil.

Svo fer ég út eftir morgunmat með sængurfötin mín út á snúru að viðra þau aðeins í rigningunni. Fyrir utan húsið mitt eru tvö lítil börn að leika sér. Ég legg aðeins við hlustir og hvað haldið þið að þau heiti? Hvað annað en Andri og Hildur!

Verð að hringja í Andra..


Stærðfræðisaga - til heiðurs Nönnu

´Á hvaða blaðsíðu er jafnan sem við eigum að nota?´ spyr hún. Hann blaðar áhugalaust í stærðfræðibókinni, finnur jöfnuna samstundis en flettir nokkrum blaðsíðum aukalega til að virðast ekki kunna bókina utan að. Hann tilkynnir blaðsíðunúmerið og leyfir stúlkunni að kljást við dæmið aðeins lengur óstudda áður en hann stoppar hana af og sýnir henni réttu úrlausnina. Hann er annars hugar og áhyggjufullur. Hvað myndi kærastan hans segja ef hún vissi að hann eyddi föstudagskvöldi í að kenna lítilli menntaskólastelpu stærðfræði? Stelpu sem er 20 árum yngri en hann sjálfur? Hann hafði logið að kærustunni; sagst þurfa að vera heima til að vinna í lokaritgerðinni sinni. Hann hafði komist upp með þetta allan veturinn. Alltaf mismunandi afsakanir; einn daginn var hann veikur, annan þurfti hann að hitta vin úr barnaskóla, svo var honum boðið í mat til mömmu en oftast þurfti hann að vinna í lokaritgerðinni. Hana var farið að gruna eitthvað, að minnsta kosti kom svipur á hana þá sjaldan sem hann hitti hana og afsakaði sig fram í tímann, sagðist ekki komast í bústaðinn með henni um helgina. Það yrði rifrildi þegar hún kæmist að því að hann er ekki einu sinni byrjaður með ritgerðina. Bara kominn með titilinn ´Aðferðir til greiningar burðarþols stálbita í hengibrúm.´ Hann hefur ekki getað hætt að hugsa um stelpuna síðan hann kynntist henni.

Hann stendur á fætur og gengur í kringum stofuborðið til að liðka fæturna. Fer að geislaspilaranum og setur Todmobile á. Hún lítur upp og á svipnum má lesa að hún kannast ekkert við tónlistina. Honum bregður við þegar hann áttar sig á hversu mikill aldursmunur var á þeim. Hann er ennþá að hissa á að svo sterkar tilfinningar gætu myndast á svona stuttum tíma. Hún vissi náttúrulega ekki neitt.  

´Þetta er fáránlegt´ segir hún hátt, orðin pirruð. Hann hrekkur við og heldur að hún hafi einhvern veginn giskað á hvað hann var að hugsa. Léttir þegar hann áttar sig á að hún átti bara við dæmið sem hún var að reyna að leysa. Hann gengur til hennar og tekur sér stöðu fyrir aftan stólinn. Hann bendir henni á hvað hún hefur gert rangt og horfir á þegar hún strokar út og reynir aftur. Hann sest aftur við borðið og reynir að einbeita sér að tölvunni sem stendur opin fyrir framan hann en getur það ekki. Hann stelst til þess kíkja hana, hvernig hún kiprar augun þegar hún er að reikna í huganum og hvernig hún slær hægri hendinni í borðið meðan hún skrifar. Hún er líka örvhent hugsar hann og horfir niður á sínar eigin hendur, músin í vinstri. Hann lítur aftur upp á andlit hennar og starir nú til að reyna að finna fleira líkt með þeim. Hann þráir að finna eitthvað sem þau eiga sameiginlegt. Hún tekur eftir því að hann er aðgerðarlaus, lítur upp og horfir brosandi á hann. ´Ertu með störu?´ spyr hún. Hann roðnar svolítið og kinkar kolli. Hún hendir blýantinum á borðið og snýr bókinni við til að hún haldist á réttri blaðsíðu. Hún hallar sér aftur í stólnum og teygir úr sér. Hann hugsar með sér hvort þetta sé rétta tækifærið til að segja henni frá. Hann hefur verið svo lengi að reyna að telja í sig kjark að hann ákveður að henda sér út í djúpu laugina áður en hann guggnar á þessu öllu saman.  

´Ég þarf að segja þér svolítið´ byrjar hann. Hún lítur á hann og geispar. Hann tafsar og veit ekki hvernig hann á að halda áfram. Hvernig á hann að segja þessari stelpu að hún hafi breytt lífi hans? Að hann gleðjist þegar hún kemur inn í herbergið og þessar kvöldstundir sem þau eigi saman við stærðfræðibækurnar séu besti partur vikunnar? Að hann hafi loksins komist að því, 37 ára að aldri, hvað það er að elska skilyrðislaust og vera tilbúinn að fórna lífinu fyrir aðra manneskju? Það er farið að teygjast úr þögninni og hann hóstar til að gera eitthvað. Loks tekur hann á sig rögg og og gloprar út úr sér á methraða: ´Þú ert dóttir mín. Ég er pabbi þinn´. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband