Amritsar - seinni hluti

  Komin heim en ferðasagan er ekki alveg búin.

Það sem að Amritsar lifir á er að þetta er landamærabær og fólk sem ætlar yfir landamærin þarf að koma þarna við, gista eina nótt eða svo og það áhugaverðasta sem gerist í Amritsar; mesta aðdráttaraflið fyrir túrista er þegar það er verið að skipta um verði við landamærin. Eða það héldum við allavegana þegar leigubílstjóri stoppaði okkur úti á götu og bauðst til að fara með okkur til landamæranna. Gaman að kíkja á svona túristaviðburði þannig að við tókum boði hans og héldum af stað. En okkur skjátlaðist. Þetta er nefnilega enginn túristaviðburður. Ef ég ætti að kasta tölu á mannfjöldann sem var þarna þá myndi ég segja yfir 500 Indverjar á móti 6 túristum. Þarna mætti okkur þrumandi rokktónlist úr hátölurum, fólk öskrandi (hvaða land er best í heimi? INDLAND!!) og brjáluð stemming. Litirnir voru allsráðandi í mannþrönginni Indlandsmegin. Ef maður kíkti svo í gegn til Pakistan þá sá maður mikið af hvítu, brúnu, ljósbláu, stöku svartan og ef karlmennirnir voru alveg að missa sig, dökkgrænan.

Svo byrjaði athöfnin sjálf. Þið ykkar sem hafið séð sMinistry of Silly Walksketsinn frá Monty Python þar sem að John Cleese vinnur fyrir The Ministry of Silly Walks. Ímyndið ykkur John Cleese í rauðum skautbúningi (svona einsog fjallkonan er í) og þá eruð þið komin með nokkuð góða mynd af þessu. Aðalpáfuglinn Indlandsmegin tók í höndina á aðalpáfuglinum Pakistansmegin (sem var líka í páfuglabúning, bara svörtum. Beisaðir búningar eru allt of exótískir fyrir Pakistana). Pakistanar og Indverjar öskruðust soldið á, Pakistan vs Hindustan, flöggin dregin niður og upp aftur, landamærahliðinu lokað og allt búið. Indverjar fóru heim til sín í gleðivímu eftir skemmtunina, þetta jafnaðist allt saman á við myndarlegustu rokktónleika á Íslandi.

Þar sem þetta var um kvöld fórum við Herdís heim til okkar í skrautlega herbergið. Við gættum okkar vandlega að horfa ekki of lengi á veggina til að fá ekki illt í augun af litasamsetningunni. Áður en við duttum út af voru gerð veðmál um hversu langan tíma það myndi taka okkur að komast inn til Pakistan í gegnum allt pappírsvesenið og kjaftæðið. Herdís veðjaði á 2 og hálfan tíma, ég giskaði á 4. Eftir það fórum við að sofa.

Málið með Pakistan er nefnilega það að það þurfa allir vegabréfsáritun til að komast til Pakistan. Nema örfá pínku lítil lönd sem eru það lítil að það tekur því eiginlega ekki.  Ísland er semsagt á þessum lista. En út af því að þetta eru svo lítil lönd sem svo fáir koma frá þá eru líka frekar fáir sem vita yfir höfuð að það eru einhverjar undantekningar frá þessari vegabréfareglu.

En landamæraeftirlitið stóð sig með prýði. Þegar því var tilkynnt að við ættum ekki að þurfa visa þá teygðu þeir sig niður í skúffu og kíktu á listann með löndunum sem þurfa ekki visa og viti menn; þar var landið Ice Land og okkur var hleypt inn. Við fórum í gegn á 2 klst og 15 mín og allt í einu vorum við komin í annað land. Við fórum úr búsældarlegu landi, með ræktaða akra beggja megin við malbikaðan veg með gangstéttum og komum út í eyðimörk..


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband