23.10.2007 | 23:46
...
Sumir halda því fram að það sé hægt að meta verðmæti starfsmanna og staðsetningu í goggunarröð eftir því hvernig skrifstofu þeir hafa. (Það er samt náttúrulega grunnatriði að hafa skrifstofu utan um skrifborðið sitt ef maður ætlar að fara að metast eitthvað.) Ýmsir þættir eru teknir inn í mat á skrifstofum. Þar ber fyrst að nefna stærð á skrifstofunni, fjölda glugga, útsýni út um téða glugga, staðsetning í skrifstofuhúsnæðinu og loks innréttingar í skrifstofunni að ógleymdum skrifborðsstólnum. Eftirsóknarverðast þykir að vera í stórri skrifstofu, helst á horni húss þannig að það sé hægt að koma fleiri gluggum fyrir og horfa meira út. Stórt og voldugt skrifborðið gnæfir yfir persneska teppinu sem leðurskrifborðsstóllinn stendur á. Punktinn yfir i-ið setur svo gríðarstóra Kjarvals málverkið sem hylur peningaskápinn með talnalásnum.
Ef eitthvað er til í þessu þá hef ég komist ansi hátt á skömmum tíma. Skrifstofan mín í gamla skóla er nefnilega gríðarstór. Hún inniheldur þrjú skrifborð sem ég get notað eftir hentugleikum, allt eftir því hvernig skapi ég er í það skiptið. Gluggarnir eru tveir með samtals sex rúðum og tveimur lausum fögum. Útsýnið er gríðarlega fallegt, þar sem að báðir gluggar snúa út að Hvítánni og Hvanneyrarengjunum. Myndin sem með fylgir er einmitt tekin út um annan gluggann, það sést reyndar lítið af engjunum því Hvítáin flæddi örlítið yfir bakka sína þennan morgun sem myndin var tekin. Skrifstofan er á þriðju hæð og það tók mig rúma viku að fatta að það eru fleiri klósett í húsinu en í kjallaranum...
Eini gallinn eru innréttingarnar. Þær eru ekki nokkurn skapaðan hlut ógnvekjandi. Spurning um að fá gamla peningaskápinn hans afa og stilla honum upp fyrir aftan plakatið með sauðalitunum?
Athugasemdir
úfff... Hildur
Gott að sjá að þú hugsar jákvætt... segj ekki meir
Birgitta (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 11:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.