1.11.2007 | 22:06
...
Fyrsta hluta ferðar er lokið. Ef það er ekki talið til vandræða að tékka sig inn í flug 3 korterum fyrir flugtak þá gekk fyrsti hlutinn vandræðalaust. Ég komst allavegana til London. Við Herdís hittumst á Liverpool Street, reyndar nokkuð seinna heldur en til var ætlast. Ég skrapp í smá göngutúr í kringum brautarstöðina. Á meðan var Herdís á brautarstöðinni að bíða eftir mér. Með hverju sms-i sem Herdís sendi mér fór skap hennar stigversnandi en gleðin við að hitta litlu systur sína aftur eftir stuttan aðskilnað vó þyngra. Síðan þá höfum við verið óaðskiljanlegar.
Gærdagurinn fór að mestu leyti í labb um borgina. Gengum um Trafalgar Square og þar í kring. Á Trafalgar Square fékk ég vinnu eftir áramót í Þýskalandi. Hlakka mikið til. Um kvöldið fórum við til Camden og hittum Aliyu, vinkonu Herdísar, og vini hennar. Við Herdís fengum svo að gista heima hjá Aliyu og erum þar enn. (Internettengingin hennar Aliyu gerði þetta blogg mögulegt.)
í morgun fórum við Herdís í Víetnamska sendiráðið til að fá vegabréfsáritun. Sú ferð var ekki til fjár. Það er víst einhvers konar frídagur í Víetnam þannig að sendiráðið var lokað.. Engin áritun handa okkur í dag og okkar bíður greinilega önnur ferð til Kensington á morgun. Þá ætlum við að kíkja á Museum of Natural History í leiðinni og fleira. Svo er plönuð heimsókn til Sævars og Fay á laugardaginn.
Ekki meira á dagskrá í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.10.2007 | 12:40
...
Hildur Sigurgrímsdóttir hefur hætt störfum hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Svona fer fyrir bestu verkefnum, þau enda einhvern tímann, að því gefnu að einhver vinni verkefnin.. Ég fylltist svo miklu lofti við starfslok mín þegar mér var hrósað að þingeyskir forfeður mínir hefðu grátið af stolti.
Horfnir eru dagar mínir bak við skrifborð niðrí kjallara að flokka kúaskýrslur, nú taka við hlýrri dagar í annarri heimsálfu. Ég vona allavegana að þeir verði heitari því annars er ég í djúpum skít varðandi útbúnað. Ég er nefnilega búin að pakka miklu úrvali af hlýrabolum og nánast engu öðru.. Jú, nærbuxum líka og nokkrum sokkum. Það togast á í mér áhyggjur af því að ég sé ekki með nóg af fötum og svo af burðarþoli líkama míns þegar hann þarf að fara að þramma með bakpokann. Reyndar eru nú bara allsherjaráhyggjur hjá mér af þoli líkama míns. Allir hafa nú væntanlega séð mig og vita hvað ég er íþróttamannslega vaxin og gefin fyrir líkamlega áreynslu. Það eru samt kannski ekki allir sem vita það að elskuleg systir mín er fjallageit. Hún er fjallaleiðsögumaður og hefur gaman af því að klifra upp á hæðir og hóla... Sjáum til hvað ég kemst langt upp með henni, svo bíð ég bara eftir henni þangað til hún kemur niður.
Allar áhyggjur víkja samt fyrir ofsafenginni tilhlökkun og kæti yfir því að komast loks í ferðalag.
Herdís getur klifrað klett
knátt með annarri höndinni
Hildur andar oft og þétt
alveg að tapa öndinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.10.2007 | 17:56
...
Ég hefði ekki átt að vera að monta mig af skrifstofunni minni.. Það boðar aldrei neitt gott.. Ég hef óljósan grun um að yfirboðarar í skólanum hafi séð þessi gáleysislegu skrif hjá mér því ég var allavegana tekin með snatri út af skrifstofunni og holað niður í kjallara nýja skóla. Kjallaraholan mín er sæmilega stór og plássið hérna inni er vel nýtt með því að raða saman allskyns nýtilegum hlutum sem á að nota seinna en er hvergi pláss fyrir nema hér. Ástandið er þannig að til að geta sest niður við litla borðið mitt þá þarf ég að halda niðri í mér andanum, snúa líkamanum í allskyns óeðlilegar stellingar áður en ég get þröngvað mér niður milli borðs og stóls.. Það er nú ekki meira pláss hérna en það.
Ég hef svosum aldrei haldið því fram að þetta sé skemmtileg vinna. Þetta hefur verið áhugaverð, einmanaleg, fróðleg, oft þreytandi vinna. Aldrei skemmtileg en heldur ekki leiðinleg þannig séð. Þangað til núna..
Í gær var ég sett í það verkefni að fara yfir 14,5 cm bunka (já, ég mældi) af skjölum sem tengjast loðdýra-tilraunum og haldi hér á Hvanneyri á árunum 1986 -94. Þessi skjöl átti ég að flokka og skrá niður. Til að líta á björtu hliðina þá veit ég allavegana meira um loðdýr heldur en ég gerði.. Þegar þetta verkefni var búið fékk ég 12 cm bunka (fann sko reglustiku í dótinu hér). Þetta er skrá yfir allar kýrnar í landinu á árinu 2006. Þessum bunka á ég að raða eftir skýrsluhaldsnúmerum á bæjunum.. Veit ekki alveg hvar bjarta hliðin er á því. Ég kann soldið af skýrslunúmerum eftir þetta, telst það kostur? Getur maður heillað fólk upp úr skónum með því að þylja upp öll skýrslunúmerin í Reykhólahreppnum?
Hefði átt að prufa það á Kollubar í gær. Seinasta skiptið sem ég fer þangað næsta mánuðinn allavegana. Barinn er lokaður í kvöld vegna árshátíðar starfsfólks. Ef þau taka maka með þá verða þau örugglega alveg fjögur á árshátíð. Svo er laugardagskvöldið frátekið því ég er á leiðinni á Barinn, með stóru B-i. Þar ætla Guðrún Nína, Stebba og Lórey að eiga afmæli. Verst reyndar að ég er svo mikill órati í skemmtanaflóru borgarinnar, rata ekki á einn einasta bar í höfuðborginni og verð að viðurkenna að ég hef aldrei heyrt um ,,Barinn". Hver býðst til að leiðsegja mér? Ég skal segja þér skýrsluhaldsnúmerið í Árbæ og á Stað!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.10.2007 | 02:02
...
Nú er það ákveðið. Ég er búin að nota kreditkortið mitt í fyrsta skipti til að kaupa mér flugmiða til London! Ég fer af landi brott 31. október kl 7:15 og kem til baka 7. desember um miðjan daginn, legg allavegana af stað 11:30.
Mér skilst að það sé takmarkið hjá vinum mínum að verða ótrúlega fit og flott meðan ég er úti. Jæja krakkar, þið hafið 5 vikur og 2 daga til að sakna mín og púla í ræktinni. Ég tek út árangurinn þegar ég kem heim og sá sem hefur staðið sig best fær medalíu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.10.2007 | 23:46
...
Sumir halda því fram að það sé hægt að meta verðmæti starfsmanna og staðsetningu í goggunarröð eftir því hvernig skrifstofu þeir hafa. (Það er samt náttúrulega grunnatriði að hafa skrifstofu utan um skrifborðið sitt ef maður ætlar að fara að metast eitthvað.) Ýmsir þættir eru teknir inn í mat á skrifstofum. Þar ber fyrst að nefna stærð á skrifstofunni, fjölda glugga, útsýni út um téða glugga, staðsetning í skrifstofuhúsnæðinu og loks innréttingar í skrifstofunni að ógleymdum skrifborðsstólnum. Eftirsóknarverðast þykir að vera í stórri skrifstofu, helst á horni húss þannig að það sé hægt að koma fleiri gluggum fyrir og horfa meira út. Stórt og voldugt skrifborðið gnæfir yfir persneska teppinu sem leðurskrifborðsstóllinn stendur á. Punktinn yfir i-ið setur svo gríðarstóra Kjarvals málverkið sem hylur peningaskápinn með talnalásnum.
Ef eitthvað er til í þessu þá hef ég komist ansi hátt á skömmum tíma. Skrifstofan mín í gamla skóla er nefnilega gríðarstór. Hún inniheldur þrjú skrifborð sem ég get notað eftir hentugleikum, allt eftir því hvernig skapi ég er í það skiptið. Gluggarnir eru tveir með samtals sex rúðum og tveimur lausum fögum. Útsýnið er gríðarlega fallegt, þar sem að báðir gluggar snúa út að Hvítánni og Hvanneyrarengjunum. Myndin sem með fylgir er einmitt tekin út um annan gluggann, það sést reyndar lítið af engjunum því Hvítáin flæddi örlítið yfir bakka sína þennan morgun sem myndin var tekin. Skrifstofan er á þriðju hæð og það tók mig rúma viku að fatta að það eru fleiri klósett í húsinu en í kjallaranum...
Eini gallinn eru innréttingarnar. Þær eru ekki nokkurn skapaðan hlut ógnvekjandi. Spurning um að fá gamla peningaskápinn hans afa og stilla honum upp fyrir aftan plakatið með sauðalitunum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.10.2007 | 02:10
...
Til að róa huga ykkar sem hafið áhyggjur af því að ég ætli að ferðast með einhverjum sem kann ekki skil á grundvallarferðatilhögunum get ég sagt ykkur að hún Herdís mín er björgunarsveit og kann að binda tvöfalt pelastikk og fleiri hnúta. Hún er æfð í að koma fram, eftirminnilegt er þegar hún var fjallkona 17. júní fyrir nokkrum árum. Hún hefur komið í sjónvarpið nokkrum sinnum í þeim mæta þætti Gettu Betur og hún vann líka stafsetningarkeppni fyrir Héraðssambandið Skarphéðin. Hún getur smalað kindum, bæði á fjórum hestsfótum og sínum eigin þó þeir séu nú bara tveir.
Svo er hún svo mikið ljós líka!
Ég læt fylgja með mynd af mér og Herdísi ásamt mömmu okkar. (ég er sko í miðjunni). Þess má einnig geta að litla systir okkar tók myndina
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.10.2007 | 01:23
...
Blogg... Er það málið?
Ég er nú svo óstöðug að eðlisfari að mér hefur aldrei tekist að halda úti bloggi. Ekki það að ég hafi reynt það. kannski ég komi sjálfri mér á óvart með þessu og verði besti bloggari í heimi.
Staðan er semsagt þessi: Hildur Sigurgrímsdóttir býr í Borgarnesi hjá ömmu sinni og hefur gert í dágóða stund. Hildur þessi er búin með sinn skóla og vinnur nú við sama skóla, eftir vel heppnað sumar í lyfjaverslun Borgnesinga. Í skólanum hefur hún titilinn ,,Rannsóknarmaður" en þeir sem eru nýir í skólanum gætu freistast til að halda að hún væri eingöngu konan á skrifstofunni. Staðreyndin er sú að hún er að vinna við hávísindalega rannsókn um kálfadauða á Íslandi.
(er samt ekki komið nóg af 3. persónunni núna?)
Nú er ég allavegana að verða búin að leysa þessa gátu með kálfana. Um næstu mánaðarmót er ég á leið til Lundúna, það er ef ég man eftir að kaupa mér miða... Þaðan fer ég til Singapúr og svo enn lengra til Víetnam og þar er fyrirheitna landið. Þar mun ég eyða tæpum mánuði við gleði og leik, fullviss um að fá hvorki hundaæði né lifrarbólgu A eða B (35.000 kall í bólusetningar og malaríulyf, það má nú ekki minna vera að þetta virki allt saman einsog það á að gera!) Þegar fer að líða á nóvembermánuð spái ég að heimþráin fari að taka völdin og mig fari að langa að komast heim til ömmu. Þá sný ég mér í norður, smelli saman hælunum og hugsa heim og viti menn, ég kemst alla leið til Singapúr! Þar verð ég hinsvegar að bíða í nokkra daga eftir viðeigandi flugi sem flytur mig til London og þaðan kemst ég vonandi klakklaust heim. Ég á von á að vera komin heim 7. desember en ekki segja blaðamönnunum frá því..
Ekki má gleyma því að samferðamaður minn í þessu öllu saman verður ástkær systir mín hún Herdís. Oft höfum við Herdís planað að fara saman til útlanda en aldrei orðið neitt úr. Nú er kominn tími til að á láta á reyna og vita hvort við komumst ekki úr landi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)